154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[23:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Svo ég byrji aðeins þar sem síðasti ræðumaður endaði þá er mjög áhugavert það sem kom fram í nýjum þætti Heimildarinnar, Pressunni frá síðasta föstudegi, að þar var þingmaður sem var að hrósa því hvernig væri verið að fara með liðskiptaaðgerðir, það væri aukinn kraftur í þeim og einkaaðilar væru að standa sig mjög vel að vinna þar upp. En á sama tíma sagði sami þingmaður að biðlistinn hefði lengst. Maður klórar sér í hausnum yfir því hvernig það getur verið jákvætt. Ástæðan var sú að það væri verið að taka fólk inn á biðlistann sem áður var neitað um að fara á biðlistann. Ég verð að viðurkenna að ég varð dálítið orðlaus. Fólki sem var neitað um að fara á biðlista. Hvað er verið að segja okkur með því? Hvern er verið að blekkja með svoleiðis tilfærslu á því hverjir mega vera biðlistum og hverjir ekki? Þegar síðan er unnið á biðlistunum má allt í einu setja fleira fólk á biðlista. Þetta bara gengur ekki upp. Það er einfaldlega einhver að plata aðra, aðallega okkur hérna sem erum að samþykkja fjárheimildirnar, um það hver raunveruleg staða á aðgerðaþörf í heilbrigðiskerfinu er. Mjög merkileg fullyrðing sem kom þarna fram hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni.

En ég ætlaði að halda áfram með nefndarálit mitt. Ég var kominn að kaflanum um það sem er innan ramma, eitt af uppáhaldinu mínu. Þar koma hin ýmsu ráðuneyti og stofnanir með markmið um að gera hitt og þetta og segjast ætla að gera það innan ramma. Ég skil vel að fólk skilji kannski ekki hvað það þýðir en ramminn, svokallaður fjárlagarammi, er í rauninni bara hversu mikið af peningum var notað á síðasta ári í að gera öll verkefni málefnasviðs eða eitthvað því um líkt. Það verður þá rammi næsta fjárlagaárs þegar það er búið að mínusa frá tímabundin verkefni og eitthvað sem búið er að klára, það er þá ramminn. Við það bætist ákveðið auka sem stjórnvöldum dettur í hug að gera, launa- og verðlagsbætur og svoleiðis sem dettur inn í það. En stóri ramminn er eitthvað sem er rosalega dularfullt og ógagnsætt og við höfum ekki hugmynd um hvernig í rauninni virkar þegar allt kemur til alls af því að við erum ekki með nógu góða eftirfylgni með framkvæmd fjárlaga. En ég tek nokkur dæmi hérna í nefndarálitinu mínu, t.d. ætlar umboðsmaður Alþingis að leggja „aukna áherslu á frumkvæðis- og vettvangsathuganir, sem er þó háð fjölgun starfsfólks“. Hvernig ætlar umboðsmaður Alþingis að ná þessu markmiði, með hvaða fjármagni? Það er sagt innan ramma. Það þýðir einfaldlega að peninginn sem hann notaði í öll verkefnin á síðasta ári fær hann áfram fyrir næsta ár og allt gott og blessað og ef hann ætlar að troða því inn að gera meiri frumkvæðis- og vettvangsathuganir þá verður eitthvað að fara út í staðinn. Öll verkefni umboðsmanns Alþingis eru unnin af starfsfólkinu sem er þar og það er í rauninni ekki hægt að taka út verkefni nema þá að taka út starfsfólk sem færi þá að vinna þetta í staðinn. Það eru önnur verkefni sem detta út. Við vitum ekki hvaða verkefni það eru, einhver verkefni sem úreldast, en ég hef ekki séð að umboðsmaður Alþingis sé að vinna eitthvað óeðlilega mikið af verkefnum nú þegar sem gætu misst sín. Ég held að það sé ekki alveg sú staða þar. Þróun rannsóknarseturs skapandi greina hjá menningar- og viðskiptaráðuneytinu er innan ramma líka. Það á að kosta sama pening og það kostaði að gera allt hitt í fyrra. Það á að efla nýsköpun á landsbyggðinni með áherslu á stuðning við sprota- og frumkvöðlafyrirtæki á sviði hátækni, hér er vísað í Lóu og Stafrænar smiðjur. Það á að gera það innan ramma, ekki fyrir neinn nýjan pening heldur fyrir sama pening og í fyrra. Hvernig er það að efla nýsköpun ef þú ætlar bara að nota sama pening og í fyrra? Það hlýtur eitthvað annað að detta út í staðinn innan rammans sem þú ert að nýta í þessa eflingu. Þú ert með tvö verkefni innan ramma, annað dettur út. Þá færð þú peninginn fyrir því til að efla hitt verkefnið. En þá ertu bara að gera eitt verkefni innan ramma en ekki tvö.

Þetta er röng framsetning. Það er rangt að gera þetta svona. Þarna á að segja: Við erum að hætta við þetta verkefni, við erum að mínusa burt pening, stroka hann út úr þessum ramma. Þar með er nýr rammi tekinn við, að frádregnu þessu verkefni. Þá á að leggja til: Hérna er nýtt verkefni sem stjórnvöld leggja til með þessu kostnaðarmati, þannig að við vitum hvað það á að kosta. Það er grundvallarkrafa laga um opinber fjármál að við vitum hvað stefna stjórnvalda á að kosta, t.d. hvað það kostar að efla nýsköpun, til þess að við getum gengið á eftir því í kjölfarið og spurt: Hvað kostaði þetta mikið? Kostaði það meira eða minna? Náðum við þeim árangri sem átti að ná með þessu verkefni? En af því að það er aldrei gert þá getum við ekki spurt: Gekk þetta, virkaði þetta? Viljum við gera meira svona? Það er bara ekki hægt og þar með getum við aldrei spurt hvað er að gerast innan þessa ramma. Þar er, held ég, uppruni alls þessa óhagræðis sem er í ríkiskerfinu. Við getum ekki gengið á eftir fjármununum og spurt hvort þeir séu nýttir á hagkvæman hátt eða ekki. Það á sem sagt að fjölga starfsfólki innan ramma, fleira starfsfólk fyrir sama pening. Það þýðir þá væntanlega að allir eru á lægri launum, ekki satt? Ég myndi halda það alla vega, eða að fleiri verði í hlutastarfi eða eitthvað svoleiðis. Mjög spes.

Ég ætla að fara aðeins yfir dæmi sem ég fann í fjármálaáætlun og fjárlögum. Ég fletti svona af handahófi og fann Byggðastofnun, datt inn á það, það er ágætisdæmi af því að þessi ríkisstjórn er nú almennt séð svona tiltölulega jákvæð í garð Byggðastofnunar, ef við notum það orð, og vill veg landsbyggðarinnar mjög mikinn. Byggðastofnun er mjög gott dæmi af því að það er mjög aðgengilegt hvað lögin um Byggðastofnun kosta. Þetta tengist því að ég hef verið að reyna að komast að því hvað lög um ýmislegt kosta, t.d. um Blóðbankann eða heilbrigðisþjónustuna o.s.frv., hvað einstaka greinar þessara laga kosta. Hvað kosta lög um réttindi fatlaðs fólks? Það er mjög óaðgengilegt. En lög um Byggðastofnun er mjög aðgengileg. Það er bara upphæð fyrir Byggðastofnun og við vitum nákvæmlega hvað það kostar og þar af leiðandi öll verkefni þar undir, alla vega vitum við heildina, þó að við séum ekki með sundurliðunina. Í lögunum er helsta hlutverk Byggðastofnunar, með leyfi forseta, „að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu“. Þá gætum við spurt: Hefur þetta gerst? Hefur þróunin verið í áttina að því að allir landsmenn hafi jafnari tækifæri til atvinnu og búsetu? Væri t.d. hægt að ná meiri árangri og meiri ábata hraðar?

Ef við skoðum t.d. orkukostnað þá er búið að vera átak undanfarið í því að reyna að jafna orkukostnað, dreifingarkostnað. Það virðist ekki hafa tekist en skoðum gögnin.

Árið 2022 var orkukostnaður viðmiðunareignar á höfuðborgarsvæðinu 183.000 kr. að meðaltali samkvæmt Byggðastofnun. Vestfirðir voru dýrastir með 283.000 kr. kostnað að meðaltali, sléttum 100.000 kr. meira. Nei, þetta er 2014, ég hef snúið þessu við. Árið 2022 var kostnaðurinn á höfuðborgarsvæðinu 196.000 kr. en 339.000 kr. á Vestfjörðum. 13.000 kr. hækkun á höfuðborgarsvæðinu, 56.000 kr. hækkun á Vestfjörðum. Sem sagt, það er ekki búið að ná jafnari skilyrðum með tilliti til orkukostnaðar.

Hvað með atvinnutekjur? Árið 2012 voru tekjur á íbúa á höfuðborgarsvæðinu rétt rúmlega 3,1 milljón samkvæmt mælaborði Byggðastofnunar en voru orðnar 4,1 árið 2021. Tekjur á íbúa á Norðurlandi vestra voru tæplega 2,7 milljónir árið 2012 en voru 3,5 milljónir árið 2021. Þar hefur þróunin verið í áttina að meira misræmi en ekki meiri jöfnuði. 31,4% hækkun á höfuðborgarsvæðinu og 30,4% hækkun á Norðurlandi vestra. Það munar ekki miklu en það er samt aðeins meiri hækkun á höfuðborgarsvæðinu.

Í fjármálaáætlun er hins vegar tafla sem fjallar um meðalatvinnutekjur hvers landshluta fyrir sig, alveg eins og er gert hjá Byggðastofnun. Það eru tölur fyrir árið 2022. Þar er áhugavert að meðalatvinnutekjur fyrir höfuðborgarsvæðið eru 5,5 milljónir og 5 milljónir næstum því sléttar á Norðurlandi vestra. Dálítið mikill munur þarna á milli þessara talna milli 2021–2022 þannig að ég er ekki alveg viss um hvort það sé verið að nota sömu forsendur í mælaborði Byggðastofnunar og síðan í fjármálaáætluninni þar sem tölurnar fyrir 2022 eru birtar nema launin hafi hækkað svona rosalega á milli áranna 2021 og 2022, hver veit. Þrátt fyrir þessa þróun í atvinnutekjum þá lækka framlög til byggðamála um 245,9 millj. kr. frá gildandi fjárlögum, með leyfi forseta:

„Fjárheimild málaflokksins lækkar alls um 215 m.kr. vegna tímabundinna framlaga sem falla niður. Um er að ræða framlag vegna sóknaráætlana landshluta 120 m.kr., framlag vegna atvinnuráðgjafa á landsbyggðinni 40 m.kr. og framlag vegna uppbyggingar atvinnulífs á Seyðisfirði 55 m.kr.“

Þetta er úr fjárlagafrumvarpinu. Síðan koma viðbætur á móti þessu og það endar í rauninni á því að samdrátturinn í málaflokknum er 220,9 milljónir frá fyrra ári. Síðan koma viðbætur frá meiri hlutanum upp á 155 milljónir í sóknaráætlanir og starfsemi atvinnuráðgjafa. Það er þarna smámunur á milli en smálækkun þegar allt kemur til alls. Og merkilegt nokk þá eru markmið fyrir Byggðastofnun og getið þið hvað, kostnaðurinn við þær aðgerðir er innan ramma. Það á að skilgreina hvað felst í opinberri þjónustu, það á að styrkja rekstur dagvöruverslana, það á að jafna aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu — innan ramma. Hvaða peninga á að nota til að jafna aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu? Það á að nýta eitthvert ákvæði í lögum um Menntasjóð námsmanna og fjölga þannig sérfræðingum á heilbrigðissviði á landsbyggðinni fyrir sama pening og í fyrra, aðeins minni en í fyrra. Það á að stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land o.s.frv., innan ramma fyrir sama pening og í fyrra, er aðeins minni en í fyrra. fyrir sama pening og í fyrra, aðeins minni en í fyrra. Hvað kostar að tryggja framboð af fjölbreyttu íbúðarhúsnæði? Það er eitt af markmiðunum:

„Framboð á fjölbreyttu íbúðarhúsnæði verði tryggt á svæðum þar sem skortur á hentugu húsnæði hamlar þróun og uppbyggingu atvinnulífs.“

Það kostar að byggja hús en það á að gera innan ramma. Ég hef ekki hugmynd og ég get ekki svarað þeirri spurningu hvað það kostar að byggja þessi hús en peningurinn er víst til frá því í fyrra, sami peningur og í fyrra sem var notaður í eitthvað annað þá. Merkilegt. Þetta er raunverulegur peningur. Ég veit ekkert í hvað peningurinn var notaður áður, en það á að nota hann í þetta núna. Ég held að enginn geti svarað þessari spurningu, alla vega hefur ekkert ráðuneyti getað svarað þessari spurningu þegar ég spyr um kostnaðinn vegna allra þessara verkefna innan markmiðanna sem eiga rúmast innan ramma, með sömu peningum og áður. Styrkja þrífösun rafmagns, það á líka að gera ýmislegt svoleiðis. Það kostar augljóslega pening. Fyrir hvaða pening? Sama pening og í fyrra. Gengur þetta upp? Kannski ef það voru í alvörunni einhver tímabundin verkefni sem þarf ekki lengur að fjármagna en þá eiga þau, bara samkvæmt því sem við setjum í fjárlög, að falla niður. Tímabundin framlög falla niður, mínusast úr rammanum til þess að við höfum gagnsæi þegar ný verkefni bætast við eins og að byggja hús eða þrífösun rafmagns eða fleira heilbrigðisstarfsfólk eða sérfræðingar eða hvað það er eða styrkja dagvöruverslanir o.s.frv.

Hvernig eiga þingmenn í alvörunni að geta samþykkt fjárlög þar sem það fer bara einhver peningur í einhver verkefni, sami peningur og í fyrra fer í einhver allt önnur verkefni en í fyrra, væntanlega? Nema það fari allt í einu minni peningur í öll verkefnin sem voru unnin í fyrra þannig að það geti farið minni peningur í öll þessi nýju verkefni. Þetta getur ekki gengið upp, það getur ekki virkað svona. Við erum í þeirri stöðu miðað við markmið laga um Byggðastofnun að markmið um atvinnutekjur, sem er að þær eigi ekki að lækka, fer gegn markmiði Byggðastofnunar um sérstaka áherslu á að jafna tækifæri. Markmiðið sem við erum í raun og veru með, að munurinn hafi ekki lækkað, er ekki í áttina að jafnari tækifærum. Það er að halda við núverandi mun. Þannig að meira að segja er ekki einu sinni sett markmið um að ná því sem er þó skrifað í lög. Ég verð að segja að ég klóra mér dálítið í hausnum yfir þessu. Ég er búinn að vera að reyna að fylgjast með því hvernig þetta allt virkar og þetta er helsta vandamálið sem við glímum við hérna á þingi. Við vitum ekki hver kostnaðurinn er við það að framkvæma gildandi lög. Ég átta mig alveg á því að það er ekkert endilega nákvæm tala sem við fáum en nýleg dæmi, t.d. um Fangelsismálastofnun, sýna okkur mikilvægi þess að kunna þetta, að vita þetta, til þess að það komi okkur ekkert á óvart þegar húsnæði er t.d. ónýtt og það dugir ekki að fara í viðhald og borga 1–2 milljarða til þess að laga það, það þarf bara að byggja nýtt af því að húsnæðið er ónýtt af því að það er ekki búið að sinna viðhaldi í mörg ár.

Og ef við pælum í stóru myndinni með þetta, af því að það er svo mikið talað um tekjur og gjöld ríkisins og afkomuna og frumjöfnuðinn og allt þetta dót, svo ég noti vinsæla orðið og bæti hagsveifluleiðréttum frumjöfnuði inn í málið, alltaf þurfti að finna eitthvað jákvætt til að setja inn í annars bara mjög sorglegt frumvarp — án þess að vita hvað liggur þarna á bak við þá getum við ekki sagt að afkoma ríkisins sé í raun og veru sú sem hún er. Stjórnvöld segja: Við erum með 50 milljarða í mínus. En ef við tökum og teljum til öll verkefnin sem eru í rauninni í annaðhvort þjónustuskuld eða innviðaskuld, við erum t.d. með fangelsi sem geta ekki sinnt fullnustu refsinga, þá er það skuld við þau lög sem við höfum sett hérna á þingi. Það þýðir enn verri afkoma í raun og veru. Það er bara búið að fela hana, moka henni inn í eitthvert ónýtt húsnæði sem blossar síðan upp að lokum þegar það kemst upp að það er orðið ónýtt. Ó, við þurfum að borga 6 milljarða aukalega til að laga þetta. Það tekur tíma sem kostar. Ef afkoman er sögð neikvæð upp á 50 milljarða þá er hún í raun og veru neikvæð upp á 56 milljarða a.m.k., en það kemur ekki fram í tölunum af því að bókhaldið virkar þannig, af því að það er hægt að segja: Það kostar 3 milljarða að reka þetta kerfi en ég ætla að segja að það kosti bara 2,5 milljarða, ég ætla að láta það duga, menn verða bara að redda sér og finna út úr þessu. En það safnast í raun og veru 500 milljónir á hverju ári í ákveðna skuld sem er í raun ósýnileg fyrir okkur. Ef við fáum ekki þau skilaboð hingað inn í þingið um hver staðan í raun og veru er, eins og þegar við fengum í lok síðasta árs fjárhagsáætlun frá Fangelsismálastofnun — sem við báðum einfaldlega um: Sýnið okkur fjárhagsáætlun sem uppfyllir lög um Fangelsismálastofnun að ykkar mati, að sjálfsögðu. Það mat getur auðvitað verið ofmat eða vanmat o.s.frv., hvernig sem það gengur, en án þess að fá að sjá það mat getum við ekki lagt okkar mat á hvort þetta sé of eða van. Við fáum ekki útskýringarnar. Við getum ekki spurt: Heyrðu, fyrirgefið, þetta hérna er rosalega mikið, finnst mér, af hverju er þetta svona mikið? Það getur komið góð útskýring á því eða það er sagt: Ja, þetta var kannski pínu ofáætlað, myndi alveg sleppa fyrir 100. Svo gengur það í tvö, þrjú ár. Já, það sleppur fyrir 100, það er fínt, frábært.

Án þess að fá þetta mat getum við í alvörunni ekki tekið ákvarðanir um fjárheimildirnar. Við ættum að vera að biðja framkvæmdarvaldið um a.m.k. fjárlög sem uppfylla öll lög í landinu. Ég myndi halda að það væri frumskylda ríkisins að segja okkur alla vega ef það getur ekki fjármagnað öll þau lög sem Alþingi hefur samþykkt. Koma fram með fjárlagafrumvarp, leggja það á borðið og segja: Þetta fjárlagafrumvarp uppfyllir öll þessi lög um Fangelsismálastofnun, Byggðastofnun og hvað það nú er, en við náum ekki að fjármagna allt. Við ætlum að herða aðeins sultarólina í vetrarsamgöngum t.d. eða póstþjónustu, við ætlum bara að fara tvisvar í viku, eða eitthvað því um líkt. Það er þá gildismat þingmanna hvort þeir sætti sig við að það sé ekki verið að uppfylla lögin um Íslandspóst. En án þess að fá þetta þá getum við ekki tekið svoleiðis ákvörðun og þá skil ég ekki hvernig í rauninni þingmenn geta haft samvisku í sér til að segja já við fjárlögunum og treysta í blindni á að það komi ekki eitthvað eins og skýrslan frá Ríkisendurskoðun um Fangelsismálastofnun í hausinn á okkur seinna. Ætlar einhver að taka ábyrgð á því að hafa rekið Fangelsismálastofnun svona, í hversu mörg ár? Finnst ykkur það líklegt? Finnst hæstv. forseta það líklegt? Mér finnst svarið frekar augljóst.

Ég hef heyrt það á nokkrum nefndarfundum þegar við fáum einhverjar stofnanir í heimsókn og maður spyr: Hvaðan koma tillögur að fjárheimildum fyrir verkefnin ykkar? Leggið þið ekki tillögur að fjárheimildum til ráðuneytisins ykkar? Svo þegar þið sjáið fjárlagafrumvarpið og sjáið að beiðnirnar ykkar um fjárheimildir eru ekki til staðar, hvað gerið þið þá? Látið þið þingið vita? Svarið er nei. Ráðuneytið hefur beðið okkur um að láta Alþingi ekki vita, senda ekki inn umsögn, öll samskipti eigi að fara í gegnum ráðuneytið. Það gerist ekki nema þingið kalli sérstaklega eftir stofnunum eins og þingið kallaði eftir Fangelsismálastofnun þegar dómsmálaráðherra í fyrra kom út með það að loka þyrfti fangelsum o.s.frv. Og ástandið með Landhelgisgæsluna, það ætti að selja flugvél og þess háttar. Alþingi kallaði eftir þessum stofnunum til að þær gætu útskýrt nánar hvað væri í gangi. Þá komumst við að því hvernig bréfasamskiptin höfðu verið á milli Landhelgisgæslu og dómsmálaráðuneytisins, hvenær hver hafði beðið um hvaða fjármagn og þess háttar. En við fengum það líka fram að forstjóra Fangelsismálastofnunar dytti ekki í hug að leggja fram fjárhagsáætlun fyrir upphæð sem myndi dekka lögin um Fangelsismálastofnun af því að, þó að ég vitni ekki alveg þráðbeint í það sem hann sagði, hann taldi ekki að sú fjárheimild myndi fást, það var einfaldlega þannig. Hann gerði fjárhagsáætlun sem honum fannst vera raunhæfari, þ.e. nær því að vera upp á þær fjárheimildir sem hann gæti fengið, í staðinn fyrir raunverulega það sem hann þurfti. Er það þá fangelsismálastjóri sem ber ábyrgð á því að biðja ekki um fjármagn til að uppfylla lög um Fangelsismálastofnun? Eða er það ráðuneytið sem ber ábyrgð á því ef ráðuneytið veit að fjárhagsáætlun frá stofnun sinni uppfyllir ekki lög, hún sinni ekki þeirri þjónustu sem hún lögum samkvæmt á að sinna? Ef ráðherra veit ekki af því þá er, samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð, ábyrgðin á starfsmönnum og stjórnendum stofnana. Ef ráðherra veit af því þá segja lög um ráðherra það mjög skýrt og greinilega að það er á ábyrgð ráðherra ef hann sinnir ekki sínum skyldum.

Ég myndi halda að það væri ákveðin vanræksla að taka yfirlýsta ákvörðun um að vanfjármagna t.d. Fangelsismálastofnun og segja Alþingi ekki frá því þannig að Alþingi geti tekið upplýsta ákvörðun. Allt í lagi, staðan er svona, við erum með fjárheimildir hérna og við vitum að það þarf að forgangsraða og við vitum að Fangelsismálastofnun er vanfjármögnuð og við ætlum að samþykkja það. Eða: Við ætlum að hafna því. Hver og einn þingmaður á það við sína samvisku og sannfæringu. En án þess að við vitum stöðuna er ábyrgðin ekki okkar, getur ekki verið. Að sjálfsögðu treystum við og berum ákveðið traust gagnvart ráðherrum, og framkvæmdarvaldinu, um að þau séu að sinna sinni skyldu af heiðarleika. Það er bara í lögum eins og á að vera, siðareglur ráðherra og ýmislegt svoleiðis. Mér finnst það mjög undarlegt og finnst mjög áhugavert að þetta geti gerst. Hver á að bera ábyrgð á því?

Ég held að vandinn sé skortur á því að fólk beri einmitt ábyrgð á atriðum sem eru vissulega þess verð að það þurfi að bera ábyrgð á þeim. Ef það er ákveðið að sinna t.d. ekki réttindum fanga þá er verið að ganga á þeirra réttindi. Einhver þarf að taka ábyrgð á því, það hlýtur að vera. Ég veit ekki alveg hvað er hægt að gera í þessu. Ég er búinn að vera að reyna að ýta og pota í þetta í nokkur ár og að fá svör við þessu og það er sífellt verið að henda mér úr einu ráðuneyti í annað: Þessi ber ábyrgð á því, hinn ber ábyrgð á því, ríkisráð fjármála sem ráðherrann er í ber ábyrgð á því, ríkisstjórnin öll ber ábyrgð á því, fjármálaráðuneytið ber ábyrgð á því, fagráðuneytið ber ábyrgð á því, stofnunin ber ábyrgð á því. Það tekur enginn ábyrgð. Og þegar enginn tekur ábyrgð þá heldur það ábyrgðarleysi áfram. Fyrst að þessi komst upp með það, þá kemst ég upp með það o.s.frv. Ábyrgðarleysið erfist. Við þurfum einhvern tímann að skera á þetta ábyrgðarleysi. Það verður kannski rosalega ósanngjarnt gagnvart þeim fyrsta sem þarf að bera ábyrgð á því sem allir forverar hans hafa klúðrað svo hryllilega. En við þurfum samt að gera það.